Skoða efni
28. Oct 2022

Ævintýralegir jólamarkaðir Evrópu

christmas market

Dreymir þig um að rölta um fallega upplýsta jólamarkaði í stórborgum Evrópu, finna fullkomnar jólagjafir og bragða á jólalegum kræsingum? Þá ertu á réttum stað því hér förum við yfir frægustu og bestu jólamarkaðina á nokkrum áfangastöðum PLAY í Evrópu. Borgirnar breytast í sannkallað ævintýraland á aðventunni og það er dásamleg upplifun að rölta á milli bása á stuttermabolnum í Barcelona eða detta í fjársjóðsleit í París dagana fyrir jól. Settu jólalögin á fóninn, gríptu kakóbolla og piparkökur og komdu þér vel fyrir því þessi lestur verður svokallað stemningsferðalag.

 

Barcelona

Við byrjum á Miðjarðarhafsborginni Barcelona. Hún er frægust fyrir magnaðan arkitektúr, gullfallegar strendur og rosalega góðan fótbolta en á veturna breytist Barcelona í sjarmerandi jólaland fyrir unga sem aldna.

Miðja jólaundirbúningsins í Barcelona fer fram á Fira de Santa Llúcia, sem er gamall og vinsæll jólamarkaður í miðbæ borgarinnar. Markaðurinn er nálægt gullfallegri dómkirkju Barcelona og úrvalið einkennist af alls kyns jólaskrauti, smámunum og handverki í bland við fatnað og gjafavöru. Markaðurinn á rætur sínar að rekja til 18. aldar og er því rótgróin hefð í huga borgarbúa og ómissandi viðkomustaður allra sem eiga leið um Barcelona í desember.

Fira de Nadal at Plaça de la Sagrada Família er annar ómissandi jólamarkaður í Barcelona. Hann er ekki ósvipaður þeim fyrrnefnda en minni í sniðum og tilvalinn fyrir þá sem kjósa aðeins rólegri stemningu. Báðir markaðirnir opna í lok nóvember og standa yfir fram á jóladag svo það er nægur tími til að fylla á jólaskapið.

 

A colorful display on a Christmas market in Europe
Traditional German Christmas market at the Gendarmenmarkt square in Berlin

Berlín

Margir af þeim jólamörkuðum sem minnst er á hér eiga rætur sínar að rekja til þýskra jólamarkaða en þaðan kemur þessi huggulega hefð upprunalega. Þýskir innflytjendur tóku þessa hefð með sér til nýrra heimkynna þar sem henni var að sjálfsögðu fagnað enda fátt betra fyrir jólin en góð stemning í góðum félagsskap. Þeir sem vilja upplifa þessa jólastemningu í upprunalegu umhverfinu ættu að fara beint til Berlínar á aðventunni.

Í Berlín er að finna fleiri en 80 jólamarkaði á víð og dreif um alla borg. Það er nánast óþarfi að veita leiðbeiningar hér því það er nánast ekki hægt að rekast ekki á jólamarkað á stuttri göngu í Berlín í desember. Og úrvalið er ekki síðra. Hér má finna allt frá hefðbundnum jólamörkuðum á huggulegum torgum til alls kyns þematengdra markaða og nútímalegri og því ættu raunverulega allir að finna eitthvað við sitt jólahæfi í Berlín.

Við mælum með jólamarkaðnum við Charlottenburg-höll, WeihnachtsZauber Gendarmenmarkt-markaðnum á Bebelplatz og Winter World á Potsdamer Platz.

Stærsti jólamarkaðurinn í Berlín er Spandau-jólamarkaðurinn. Risastórt tré trónir þar fyrir miðju en allt í kringum það eru steini lagðir stígar sem minna á Þýskaland á 14. öld. Hér er nóg af góðmeti í boði, handverki og meira að segja helgileikur með lifandi dýrum.

En jólaundirbúningurinn í Berlín snýst ekki bara um markaðina. Þessi borg kann sannarlega að jóla og hér birtast skautasvell og jólalönd um alla borg í bland við fagurlega skreytt hús og stræti.

 

Kaupmannahöfn

Höfuðborg Danmerkur er þekkt fyrir litrík húsin á höfninni, sögufræga kastalana og frábæra matarmenningu. En það er í aðdraganda jólanna sem Kaupmannahöfn lætur virkilega ljósin sín skína. Bókstaflega.

Fyrsti viðkomustaður ætti að sjálfsögðu að vera Tívolí, einn elsti skemmtigarður í heimi. Yfir vetrarmánuðina breytist þessi ævintýralegi garður í einn jólalegasta stað í heimi þegar um tvær milljónir jólaljósa lýsa upp svæðið. Sveigar, kransar og aðrar skreytingar þekja gönguleiðirnar og hefðbundin dönsk góðgæti og handverk fást í sölubásunum. Ekki gleyma að smakka á dýrindis dönsku jólakræsingunum eins og æbleskiver og gløgg.

En við mælum líka með hátíðlegum jólamarkaðnum á Højbro Plads, við eitt aðaltorg Kaupmannahafnar en þar er að finna ógrynni af söluköfum sem selja handverk, falleg teppi, danskt jólagóðgæti og margt fleira. Aðgangur er ókeypis en jólasveinninn lætur yfirleitt sjá sig hér til að heilsa gestum og gangandi og sitja fyrir á myndum.

 

christmas at Tivoli Gardens, Copenhagen
Night view from christmas time of the temple bar, Dublin

Dublin

Næst á dagskrá er Dublin, höfuðborg Írlands. Dyflinnarkastali er frægt kennileiti borgarinnar en jólamarkaðurinn þar er ekki síður verðugur áfangastaður. Markaðurinn er settur upp í görðum kastalans og þar er að finna rúmlega 30 sölubása sem selja hefðbundna írska gjafavöru og handverk.

Litlir jólakórar sjá um að viðhalda hátíðlegri stemningu og hestvagnarnir og heita viskíið gera slíkt hið sama. Gestir fá ókeypis aðgang að íbúðum kastalans þar sem hægt er að virða fyrir sér íbúðamiklar vistarverur írskra þjóðhöfðingja á árum áður.

En Dublin lumar á fleiru fyrir hátíðirnar. Á sögufrægum Fruit & Veg markaði borgarinnar er árlega útbúið yfirbyggð jólaþorp. Hér er nóg við að vera, allt frá jólakórum til sirkuslistamanna og hér er að sjálfsögðu nóg úrval af sölubásum sem bjóða upp á jólaglögg og handverk og allt þar á milli.

Síðast en ekki síst ber að nefna sérstakt framtak Dyflinnar í jólahefðunum en það er Sjálfbæri jólamarkaðurinn í CHQ-byggingunni. Hér er að finna framleiðslu sjálfbærra fyrirtækja Írlands sem taka sérstaklega á sjálfbærum og umhverfisvænum framleiðsluaðferðum og stuðla fyrir vikið að umhverfisvænni jólum. Þótt markaðurinn sé aðeins opinn eina helgi, 6.-8. desember, er hann vel þess virði fyrir þessa einstöku nálgun á jólainnkaupin og jólaneysluna. Sjálfbæri Jólamarkaðurinn er við Great Clarence St í Ballybough.

 

Spennandi?

Skoða flug til Evrópu

Finna flug

Liverpool

Englendingar kunna á sína jólamarkaði og Liverpool er þar engin undantekning. Jólamarkaður Liverpool er staðsettur á St. George‘s Plateau á William Brown Street. Markaðurinn opnar 19. nóvember og því nægur tími til að komast í jólaskapið fyrir jól. Hér er vinsælt að prófa parísarhjólið og fara í hringekjuna en hér eru líka rúmlega 40 sölubásar.

 

Bragðlaukum er boðið upp á alþjóðlega stemningu á þessum markaði og hér er nóg að bíta og brenna, allt frá þýskum pylsum yfir í úrval fyrir grænkera. Borgarráð Liverpool velur sérstaklega söluaðila á þennan markað svo úrvalið ætti að vera fyrsta flokks.

En þessi markaður snýst ekki bara um jólagjafainnkaup því hér er nóg af afþreyingu í boði. Einn básinn býður t.d. upp á karókí á meðan annar skipuleggur fund með jólasveininum og enn annar býður jólabita til smökkunar. Hér er síðan yfirleitt jólakór að störfum til að halda uppi hátíðlegri stemningu.

 

Christmas mini Houses Display
christmas market in London

London

Við höldum okkur við England því næsti áfangastaður er London. Margir leggja leið sína til London fyrir jól því jólastemningin er litrík, lifandi og alltumlykjandi og þar ber helst að nefna fjölmarga jólamarkaði Lundúna. South Bank Centre Winter Market við árbakka Thames er sérstaklega fallegur og ekki síðri er Kingston Market með sína sögufrægu staðsetningu enda á markaðurinn rætur að rekja til 19. aldar. En ef þú vilt eitthvað stórt, eitthvað öðruvísi og eitthvað brjálæðislega skemmtilegt, skaltu fara beint í Winter Wonderland í Hyde Park.

Þetta er hátíðlegur staður í miðri borg og hér er ekki hægt að láta sér leiðast. Rúmlega 100 sölubásar raða sér eftir götum útimarkaðarins og inni á milli er allt fullt af afþreyingu. Hér má klára jólagjafainnkaupin og fara svo í risastórt parísarhjól til að fá ótrúlegt útsýni yfir borgina að launum og enginn ætti að missa af stærsta skautasvelli Bretlands sem er að finna í þessum ævintýralega jólagarði.

Fyrir þá sem kjósa heldur fágaðri stemningu mælum við með jólaþorpinu í Covent Garden. Þessi skemmtilegi markaður býður meðal annars upp á heilan skóg af jólatrjám sem hægt er að ganga um undir jólaljósaskreytingum. Í þorpinu er að finna marga góða veitingastaði ásamt hefðbundnum sölubásum og afþreyingu.

Þeir sem vilja forða sér frá snjó og kulda ættu að skoða Christmas under the Canopy við King‘s Cros. Markaðurinn er upphitaður undir tjaldþaki svo það er hægt að versla og borða í hlýjunni. Hér er líka að finna umhverfisvænar vörur ásamt sérstökum viðburðum og jólakórunum.

 

Madríd

Það má alltaf velja hlýrri útgáfu af aðventunni og þá er Madríd frábær valkostur. Aðaltorg borgarinnar, Plaza Mayor, breytist í gullfallegt jólaþorp á aðventunni með risastóru jólatré og fallegum jólaljósum. Það er óþarfi að pakka dúnúlpunni og það er ómótstæðileg stemning að geta gætt sér á æðislegum spænskum mat á milli sölubása.

Helgileikir eru í hávegum hafðir á Spáni og jólamarkaður Madríd lætur ekki sitt eftir liggja í þeim málum. Hér er líka tilvalið að versla aðföng í sinn eigin helgileik ásamt fallegu handverki, skartgripum og annarri gjafavöru. Markaðurinn er nógu stór til að hægt sé að verja nokkrum klukkutímum í að rölta um og versla en nær samt að halda þægilegu andrúmslofti og huggulegri stemningu.

Þegar markaðsöflunum hefur verið fullnægt er svo nóg annað hátíðlegt að gera í Madríd á aðventunni. Það er t.d. vinsælt að mæta í jólamessu í einhverri af mörgum fallegum og sögufrægum kirkjum borgarinnar. Við mælum síðan alltaf með flamenco-sýningu og veitingastöðum Madrídar sem margir hverjir bjóða upp á sérstakan jólamatseðil á aðventunni.

 

christmas market in Madrid
Paris Christmas Street

París

Segðu "Joyeux Noël" í borg ljósanna og kíktu til Parísar fyrir jólin. Í París er að finna fjöldan allan af jólamörkuðum og hver þeirra býður upp á einstaka upplifun. La Magie de Noël eða Töfrar jólanna, er stærsti jólamarkaður Parísar við Tuileries-garða. Hann var áður staðsettur á Champs-Elysées en er nú við hliðina á Louvre-safninu.

Fleiri en 13 milljónir heimsækja þennan markað árlega og njóta tívolítækjanna og fallegra ljósanna. Hér er að finna parísarhjól og klessubíla og margt fleira og hér þarf engum að leiðast. Hér er að sjálfsögðu líka að finna franskt góðgæti eins og saucissons, kampavín og crepes, ásamt handverki, hönnun og einstakri gjafavöru.

Töluvert meiri ró og kyrrð ríkir yfir jólamarkaðnum við Notre Dame. Þessi markaður er þekktur fyrir tónlistaratriðin og sælkeramatinn en turnar dómkirkjunnar setja dramatískan svip á stemninguna. Kirkjan sjálf bíður endurbyggingar árið 2024 eftir mikið tjón í eldsvoða en þetta er engu að síður heimsfrægt kennileiti og hátíðlegur staður til að heimsækja.

Að lokum

Hvert sem þú ferð skaltu ekki láta sjarmerandi jólamarkaði borganna fram hjá þér fara. Við bjóðum ódýrt og þægilegt flug til allra þessara áfangastaða og þá er ekkert því til fyrirstöðu að allir komist í sannkallað jólaskap. Gleðileg jól!

 

Spennandi?

Skoða flug til Evrópu

Finna flug
Feneyjar
NÆST Á DAGSKRÁ

Bestu dagsferðirnar frá Feneyjum


Afþreying í Evrópu